Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Landnám aftur á Grænlandi ?

Hvar er fiskurinn í sjónum ?  Við Grænland.  Hvar býr fallegasta fólkið ?  Á Grænlandi.  Hver er fallegasta og gáfaðasta þjóð veraldar( meira að segja betri en við) ?  Auðvitað Grænlendingar.  Maður þarf nú ekkert að vera að spyrja að þessu er það ?  Þetta er nú bara barnaskólaspurning.

Kannski er best bara að flytja til Grænlands ?  Hefja landnám að nýju eins og hann Stefán hreindýrabóndi ?

Brattur, var einhver að tala um brattur ?  Í Bröttuhlíð á Grænlandi hafa fornleifafræðingar grafið upp fjós, 53 metra langt og 14 metra breitt og með 1,5 metra þykkum hlöðnum steinveggjum og þar fyrir utan torfhleðsla til einangrunar, ja þá myndi hvorki væsa um mig eða kýrnar, ef ég byggi svo fínt, meira að segja þær gætu verið brattar blessaðar kusurnar, enda heilagar skepnur eins og Indverjar hafa marg sagt. Mig minnir að þær hafi sofið á neðri hæðinni fyrr á tímum á Íslandi, líkt og lífrænir miðstöðvarofnar ?  Tökum Búkollu( sá í fréttunum áðan að Íslenska kýrin hefði stórmerkilega erfðaeiginleika sem vert væri að varðveita og ég er sammála því og lifi líka íslenska Geitin og hundurinn og Hagamúsin, en Rottan ?  Ég veit það ekki !) með til Grænlands og byrjum að búa um okkur til framtíðar ?  Erum við ekki Norrænir menn ?  Ekkert helvítis(afsakið) Kanarí.  Kanarí er bara Svínarí, alltof mikil sól og endalaust gamalt fólk og jólasveinar á G-strengjasprangi.

Myndbrotið er með Igga Pop og  úr kvikmyndinni Arizona Dream eftir Emir Kusturica

En tónlistin er samin af Goran Bregović, þeim sama og samdi ógleymanlega músík í myndinni Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan.

Ég er ekki frá því að við þurfum að gera einhverja svipaða mynd hér á landi, um okkur sjálf.  þar sem við sönnum fyrir umheiminum að við getum hlegið að okkur sjálfum.  Ég veit ekki hvort nokkur erlendis myndi nenna að horfa á þetta, en það sakar ekki að reyna !  Hvað gæti myndin heitið ?  Það er soldil spurning ?

 


Auto-Cleaner ryksugan Er framtíðin NÚNA-----strax

Snillingarnir á Vörutorginu á Skjá-1 auglýstu nýja sjálfvirka ryksugu í dag.

Þeir tóku fram að börn og gæludýr eru ekki í hættu.  Mér varð mjög létt, því ég var byrjaður að hafa smá áhyggjur.

Er þetta ekki tilvalið tæki til að soga burt óhreinindin úr Íslensku samfélagi, sem ég hélt áður að væri nánast fullkomið.

Hvernig væri svo bara að sleppa henni lausri útaf heimilinu og láta hana átómatískt frelsa heiminn undan veldi hinna myrku afla, láta hana líka soga burt myrkrið svo sólin fái skinið.

Auto-Cleaner er það ekki málið.  Við virðumst vera stödd í framtíðinni og er þetta ekki punkturinn yfir i-ið til að fullkomna Útópíuna.

Datt þetta svona í hug.  Var í einhverju letikasti í dag, var búinn að fresta að ryksuga frá því í gær, settist í sófann og kveikti á sjónvarpinu.

Á Stöð 1 var sápuópera.  Á Stöð 2 var sápuópera.

En á Skjá 1-num var Vörutorg að auglýsa byltingarkennda ryksugu.

Auto-Cleaner ryksuguna.   

Mér líður eins og skáldsagnapersónu í vísindaskáldsögu frá 1960.

Nú er bara að fá sér konu sem er sambland af lífrænum massa og vélrænum hugbúnaði og spila Eve-Online endalaust.   


Paradísarfuglar fetta sig og bretta fyrir sinni heilladís

Ég hef lengi velt því fyrir mér hver hafi hlegið fyrst á jörðinni. 

Hverjum datt þetta í hug ?  Eða skeði þetta bara af skemmtilegri tilviljun eða var ekkert annað hægt, því þegar mannskepnan var orðin mett og sat við eldinn, hvað var þá annað hægt en ljá henni tungumál, bæði til að stinga tungunni upp í hvert annað og til að segja sögur af Grýlu og Leppalúða og vitringunum sjö, jólasveinunum kátbroslegu en ógnvænlegu, furðum handan við fjöllin blá og hvað við hvert okkar fyrir sig erum einstaklega vitlaus inn við beinið en einnig ljá henni bros og hlátur, því annars rækju þessir menn sem inn við beinið geta verið bölvaðar skepnur, hvorn annann á hol, svo ekkert yrði lengur til að segja sögur um, né nokkur einasti til að kveikja eld til að orna sér við.

En löngu áður að ég tel, áður en menn komu til sögunnar, þó enginn hefði enn orðið til sem gæti hlegið svo dátt að undir tæki í fjöllunum hafði veröldin innifólginn snert af svolitlu skopskyni, í hverri einustu lífveru sem fæðst hefur á þessari jörð.  Svolitla kátínu og sprell, galsa og galgopa.

Þetta Youtubebrot ber yfirskriftina: "Bird in the Papua New Guinea"  

Nýja Gínea er næststærsta eyja jarðar, næst á eftir Grænlandi og er staðsett norður af Ástralíu.  Henni er skipt í tvennt, með beinni línu þvert yfir miðja eyjuna, bein lína er auðvitað uppfinning Evrópumanna, þó hún sé ekki sú nytsamasta þegar marka á landamæri, svipað og Íslandi væri skipt í tvennt, öðru megin EB sinnar og hinu megin aðrir sinnar, en Vesturhluti Nýju Gíneu tilheyrir Indónesíu, en Austurhlutinn er sjálfstætt ríki sem nefnist Papua New Guinea.

Nýja Gínea er það svæði jarðar sem ríkast er af tungumálum.  Samtals 1073 tungumál, en íbúar eru 7.1 milljón.  Þarna eru höfuðstöðvar Paradísarfuglanna, sem fetta sig og sperra í myrkviðum skóganna.  Talið er að enn búi á eyjunni 44 ættbálkar sem enn hafi ekki myndað tengsl við það sem við köllum siðmenningu, þ.e.a.s vita ekkert af hraðbönkum og svoleiðis vitleysu.  Þeir tjilla bara í myrkum skógum fjallanna, týndir meðal tröllanna og myndu eflaust skilja lítið ef við ætluðum að fara að útskýra þetta allt saman fyrir þeim.  Látum þá bara í friði.  Ég held að það sé best.


Besti bankinn er í hjartanu.

Í bók sem ég er að lesa um Taóisma er vitnað í Chuang Tzu, sem var bæði mystískur fræðari og mikill húmoristi.

"Einu sinni dreymdi Chuang Tzu að hann væri fiðrildi, fiðrildi sem hoppaði og skoppaði um loftið, hamingjusamur í sjálfum sér og gerði það sem hann lysti. 

Hann vissi ekki að hann væri Chuang Tzu. 

Skyndilega vaknaði hann upp og þarna var hann líkamnaður og án nokkurs vafa Chuang Tzu. 

En hann vissi ekki hvort hann væri Chuang Tzu sem hafði dreymt að hann væri Fiðrildi eða Fiðrildi sem dreymt hefði að það væri Chuang Tzu."

Góðir draumar eru allavega gulls ígildi og besti bankinn er í hjartanu.


Kraftur Dugur og Þor

 

Ég tek undir með Katrínu Oddsdóttur í Fréttablaðinu í dag.  Þrumuræða hennar á Austurvelli, sýndi fram á að þrumugoðið sjálft gæti eftir allt saman heitið Þóra en ekki Þór, en það er önnur saga, eins er ég ánægður með það að Neyðarstjórn kvenna hafi verið komið á fót.  Því fleiri fætur sem samfélagið stendur á, því betra.

Úr þessari frétt orðrétt: 

"Meðal þess sem Katrín og fleiri krefjast er að forseta verði veitt leyfi til að mynda utanþingsstjórn.  Landinu yrði þá stjórnað af sérfræðingum fram að kosningum.  "Kosningar eru nauðsynlegar.  Eins og sést á skoðanakönnunum er þetta fólk ekki með umboð fjöldans.  Til dæmis er það mikill misskilningur hjá Ingibjörgu Sólrúnu að halda að hún ein geti leitt okkur út úr ógöngunum.  Það þýðir ekki að blindast algjörlega af eigin ágæti."

 Tek heilshugar undir hvert einasta orð.

Niðurlag viðtalsins er:

"Spurð hvort hún hyggi á frama í pólitík segist hún ætla að einbeita sér að Neyðarstjórninni í bili.  "Þar eru kraftmiklar konur að búa til "blueprint" af nýju samfélagi.  Ég hef mikla trú á þessum hópi,"," segir Katrín Oddsdóttir.

Ég sjálfur hef líka mikla trú á sköpunarmætti þessarra kvenna og efast ekki um að þarna eru samankomnar margar af heilladísum upprennandi kynslóðar.

Kynslóðar sem tilbúin er að sýna:                  KRAFT  DUG  og ÞOR


Ekki bara koma með innleggið, komdu með eggið !

Ég gluggaði áðan í bók Jack Kornfields "Um hjartað liggur leið",  í Íslenskri þýðingu Sigurðar Skúlasonar.  Var reyndar að leita að öðru, en læt þetta flakka. 

Eftirfarandi fer orðrétt öll blaðsíða 24 úr þessari mætu bók:

 

"Kannski munið þið eftir blaðagreinum fyrir nokkrum árum þar sem fram komu hugmyndir um að stofna sæðisbanka fyrir Nóbelsverðlaunahafa.

Þá skrifaði áhyggjufull kvenfrelsiskona í Boston Globe og benti á að ef til væru sæðisbankar ættu einnig að vera til eggjabankar.  Blaðið birti svarbréf til hennar frá George Wald sem var Nóbelsverðlaunahafi í líffræði frá Harvardháskóla, mikill öðlingur og viskubrunnur í þokkabót.  Hann sagði:

 

Þér hafið algjörlega rétt fyrir yður.  Egg er jafn nauðsynlegt og sæði til þess að leggja drög að Nóbelsverðlaunahafa.  Fyrir utan föður hafa þeir allir átt sér móður.  Þér getið sagt það sem þér viljið um feður, en framlag þeirra til getnaðar er í raun lítilfjörlegt.

En ég vona að þér hafið ekki í alvöru verið að stinga upp á eggjabanka.  Að Nóbelsverðlaunahöfum slepptum þá stendur fátt í veginum fyrir því tæknilega séð að stofna slíkann banka.  Það eru jú nokkur vandamál, en ekkert þó eins erfitt og þau sem eru til staðar í annars konar útungunarvélum.

En hugsum okkur mann svo hégómlegann að hann krefjist þess að fá og fái úrvalsegg úr eggjabanka.  Þá þarf hann að frjóvga það.  Og hvert fer hann svo með það þegar það er gert ?  Til konu sinnar ?  "Heyrðu elskan, ég er hérna með úrvalsegg úr eggjabanka, sem ég er búinn að frjóvga.  Vilt þú sjá um það ?  "Ég er sjálf með egg þakka þér fyrir," svarar hún.  "Veistu hvað þú getur gert við þetta úrvalsegg þitt ?  Farðu og leigðu þér leg.  Og í leiðinni geturðu farið og leigt þér herbergi."

Þér sjáið að þetta gengur ekki.  Sannleikurinn er sá að það sem maður þarfnast í raun og veru eru ekki Nóbelsverðlaun, heldur ást.  Hvernig haldið þér að maður verði Nóbelsverðlaunahafi ?  Með því að vilja ást, það er svo einfalt.  Þrá hana svo sterkt að maður vinni eins og berserkur alla daga og endi sem Nóbelsverðlaunahafi.  Nóbelsverðlaun eru sárabætur.

Það sem skiptir máli er kærleikur.  Gleymum sæðisbönkum og eggjabönkum.  Bankar og ást eru ósættanlegar andstæður.  Ef þér vitið það ekki hafið þér ekki komið í bankann yðar nýlega.

Málið snýst bara um að elska.  Elskið Rússa.  Það mun koma yður á óvart hve auðvelt það er og hve morguninn verður bjartari.  Elskið Íraka, Víetnama, ekki bara fólk hér, heldur alls staðar.  Síðan þegar þér eruð orðin góð í því reynið þá eitthvað erfitt eins og það að elska stjórnmálamenn í höfuðborg okkar eigin lands."

 

Þar á George Wald við Washington, en hér á landi er höfuðborgin Reykjavík og nú er frost og svolítið kalt úti, en mikill funi í mönnum.  Sannkölluð höfuðborg elds og ísa.

Þetta youtubebrot að ofan bar eftirfarandi yfirskrift inn á Youtube:

EGG internet bank Campaign


Erum við þjóðin í garðinum ?

Fyrir þá sem ekki vita, þá skeði teiknimyndaserían um Jóga Björn í Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum.

Um þann þjóðgarð man ég eftir að Ómar Ragnarsson fjallaði um í sjónvarpinu á sínum tíma í tengslum við virkjanaumræðu á Íslandi.

Af hverju gerum við okkur ekki grein fyrir því að Ísland er í rauninni einn stór þjóðgarður og að næstum einu spendýrin í garðinum erum við sjálf.

Jógi Björn er Nýríki gaurinn með "Auðveldu lausnirnar"  Bara græða peninga.  Skítt með annað !  Eftirlit ?  Þurfum ekkert eftirlit.  Markaðurinn finnur þetta út sjálfur ! 

Menn þurfa ekki að hafa hjarta !  Fjármagnið hefur nógu stórt hjarta til að rúma alla og svo fóru allir í rúmið með fjármagninu.  En um morguninn þegar þeir vöknuðu, uppgvötuðu þeir að þetta var bölvuð tík.

Bú Bú litli vinur hans er meginhluti Íslendinga á undanförnum árum.  "Þögli meirihlutinn"

Þjóðgarðsvörðurinn er Ríkisstjórnin og Seðlastjórinn.

Sem nú eru í Björgunarleiðangri" til að bjarga heiðri Íslands.

Forrétturinn !  Hvað var í Forrétt eiginlega ?

Aðalrétturinn !  Bankabrun með Bankahrunssósu ?  Setjum krónuna í flotgalla !

Eftir stendur Réttur okkar sjálfra og Réttlæti sem sigrar alltaf að lokum. 


Sjálfstætt fólk ?

Nú stendur yfir sjónvarpsþátturinn "Hálfstætt fólk" og þetta er síðasti þátturinn á vegum þáttastjórnandans.

Þátturinn er kostaður af kosningasjóði "Hálfstæðisflokksins" sem er að reyna að standa  á einni löpp, annarri löpp Forsætisráðherra, því kona hans tók af honum hina, því hana vantaði hangiketslæri í jólamatinn.  Nú er bara að spara og maður verður að nýta allt sagði kella og einhverstaðar verður að skera niður, líka hjá okkur, ho ho ho....

  Svo er það bara súrsaður hrútspungurinn á Seðlastjóranum á Annann í Jólum. 


Verjum velferðina ! Sýnum ást okkar í verki og mætum á staðinn !

Landssamtökin Þroskahjálp, Örykjabandalag Íslands, Félag eldri borgara í Reykjavík ásamt BSRB munu standa fyrir útifundi mánudaginn 24. nóvember á Ingólfstorgi, Fundurinn hefst kl. 16:30 með tónlistarflutningi. Gert er ráð fyrir að fundinum verði lokið kl. 17:30. Yfirskrift fundarins er „Verjum velferðina.“ Ræðumenn eru : Gerður A. Árnadóttir, formaður Þroskahjálpar, Halldór Sævar Guðbergsson, formaður ÖBÍ, Margrét Margeirsdóttir, formaður Félags eldri borgara og Árni Stefán Jónsson, formaður SFR og varaformaður BSRB, í lok fundarins verður borin upp ályktun. MÆTUM ÖLL

 Ég skora á alla að mæta.  Hættum að horfa bara á sjónvarpið !  Sýnum ást okkar í verki !


Ást í verki ! El spirito da revolution

Ef 18 dagar eru réttlátur dómur, fyrir að klifra uppí krana og neita að koma niður !

Hvað er þá réttlátur dómur fyrir að troða sér í æðstu stöðu í Seðlabankanum og sitja þar sem fastast og neita að fara ?

Í fyrra tilvikinu er verið að mótmæla Kárahnjúkavirkjun.

En í því síðara að mótmæla öllum mótmælum meirihluta Íslensku þjóðarinnar, hvort sem það er á Austurvelli eða annarsstaðar, gegn eigin setu í Seðlabanka sem er gjaldþrota.

Sumir halda að öll mótmæli séu bara einhver reiði !

Nei, þetta er ekki bara reiði, heldur ÁST á börnum okkar !

Umhyggja fyrir þeirra framtíð og tilvist HÉR og NÚ !

Þetta sýndi móðir Hauks og fékk piparúða í augun og fór uppá slysadeild.

Þetta youtubebrot úr mynd Luc Besson "Subway",  er tileinkað henni og syni hennar.

Höfum eitt á hreinu !

ÁST Í VERKI

Það er það sem það er !

Það er allt og sumt !

Ef eitthvað á að geta mildað ást og reiði almennings, þá er það Þjóðstjórn strax !

Óbundin af pólitísku hrossakaupaþrasi og flokkadráttum. 

Ég sé það sem einu starfhæfu Ríkisstjórnina undir þessum kringumstæðum, sem gæti látið verkin tala og haft vinnufrið og stuðning almennings.

Ég legg til að sú stjórn verði skipuð á Þjóðfundinum í Háskólabíói næsta Mánudag.

Það er ekki eftir neinu að bíða, ef fólk á að geta haldið Jól í friði !


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband