Ekki bara koma með innleggið, komdu með eggið !

Ég gluggaði áðan í bók Jack Kornfields "Um hjartað liggur leið",  í Íslenskri þýðingu Sigurðar Skúlasonar.  Var reyndar að leita að öðru, en læt þetta flakka. 

Eftirfarandi fer orðrétt öll blaðsíða 24 úr þessari mætu bók:

 

"Kannski munið þið eftir blaðagreinum fyrir nokkrum árum þar sem fram komu hugmyndir um að stofna sæðisbanka fyrir Nóbelsverðlaunahafa.

Þá skrifaði áhyggjufull kvenfrelsiskona í Boston Globe og benti á að ef til væru sæðisbankar ættu einnig að vera til eggjabankar.  Blaðið birti svarbréf til hennar frá George Wald sem var Nóbelsverðlaunahafi í líffræði frá Harvardháskóla, mikill öðlingur og viskubrunnur í þokkabót.  Hann sagði:

 

Þér hafið algjörlega rétt fyrir yður.  Egg er jafn nauðsynlegt og sæði til þess að leggja drög að Nóbelsverðlaunahafa.  Fyrir utan föður hafa þeir allir átt sér móður.  Þér getið sagt það sem þér viljið um feður, en framlag þeirra til getnaðar er í raun lítilfjörlegt.

En ég vona að þér hafið ekki í alvöru verið að stinga upp á eggjabanka.  Að Nóbelsverðlaunahöfum slepptum þá stendur fátt í veginum fyrir því tæknilega séð að stofna slíkann banka.  Það eru jú nokkur vandamál, en ekkert þó eins erfitt og þau sem eru til staðar í annars konar útungunarvélum.

En hugsum okkur mann svo hégómlegann að hann krefjist þess að fá og fái úrvalsegg úr eggjabanka.  Þá þarf hann að frjóvga það.  Og hvert fer hann svo með það þegar það er gert ?  Til konu sinnar ?  "Heyrðu elskan, ég er hérna með úrvalsegg úr eggjabanka, sem ég er búinn að frjóvga.  Vilt þú sjá um það ?  "Ég er sjálf með egg þakka þér fyrir," svarar hún.  "Veistu hvað þú getur gert við þetta úrvalsegg þitt ?  Farðu og leigðu þér leg.  Og í leiðinni geturðu farið og leigt þér herbergi."

Þér sjáið að þetta gengur ekki.  Sannleikurinn er sá að það sem maður þarfnast í raun og veru eru ekki Nóbelsverðlaun, heldur ást.  Hvernig haldið þér að maður verði Nóbelsverðlaunahafi ?  Með því að vilja ást, það er svo einfalt.  Þrá hana svo sterkt að maður vinni eins og berserkur alla daga og endi sem Nóbelsverðlaunahafi.  Nóbelsverðlaun eru sárabætur.

Það sem skiptir máli er kærleikur.  Gleymum sæðisbönkum og eggjabönkum.  Bankar og ást eru ósættanlegar andstæður.  Ef þér vitið það ekki hafið þér ekki komið í bankann yðar nýlega.

Málið snýst bara um að elska.  Elskið Rússa.  Það mun koma yður á óvart hve auðvelt það er og hve morguninn verður bjartari.  Elskið Íraka, Víetnama, ekki bara fólk hér, heldur alls staðar.  Síðan þegar þér eruð orðin góð í því reynið þá eitthvað erfitt eins og það að elska stjórnmálamenn í höfuðborg okkar eigin lands."

 

Þar á George Wald við Washington, en hér á landi er höfuðborgin Reykjavík og nú er frost og svolítið kalt úti, en mikill funi í mönnum.  Sannkölluð höfuðborg elds og ísa.

Þetta youtubebrot að ofan bar eftirfarandi yfirskrift inn á Youtube:

EGG internet bank Campaign


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband