8.11.2008 | 20:56
Gleym mér ei
Lífið er bara eitt stórt ástarævintýri
segir meistarinn
Tak því þennann kross og gakk
Sjáið þið ekki að þessi kross
stingst líkt og sverð í jörðina
allt að kjarnanum
í miðju jarðarinnar
sem er hjarta móður minnar
sú sem fæddi mig af sér
Tak þennann kross og gakk
því það er sverð þitt
Með því klýfur þú allt
sem hindrar að ást föðursins
berist til móðurinnar
Því það er hjarta hennar sem
blæðir
Sjáið þið ekki að hún fellir tár
þar sem hún felur sig í kvöldskugganum
Allir eiga ekki nema eina móður
og einn föður og í hjarta
sérhvers manns er fólgin
eining þeirra
Líttu því ekki á þjáninguna
sem eitthvað persónulegt
þér einum viðkomandi
Líttu frekar á þig sem
eitt af tárum móðurinnar
skapað af ástarhug og söknuði
og þögulli bæn um nánd
Fyrr en síðar mun svo þetta tár
falla á enni föðursins
mitt á milli augna hans
Þegar hann vaknar svo upp
og reynir að sjá hvað það er
sem fallið hefur á enni sitt
Sér hann að það er blóm
og hann stynur upp nafn þess
"Gleym mér ei"
Líf þitt er því bara eitt stórt ástarævintýri
Því í sál þinni býr barnslegur
og glaður engill
sem dag hvern eys í skálar ástarinnar
eina skál fyrir móður sína
og eina skál fyrir föður sinn
"Ég er vegurinn" segir faðirinn
"Ég er sannleikurinn" segir móðirin
og er þau tvö klingja saman
skálum sínum í hjarta sonarins
heyrist undurfagur tónn
í þeim undurfagra tón
hefur fuglinn Fönix sig á loft
og af goggi þess fugls
eru mælt fram síðustu orð meistarans
"Ég er lífið"
Síðan tekur sá fugl flugið
frá Hauskúpuhæð(Golgata)
og svo útyfir ruslahauga
Jerúsalemborgar(Gehenna)
Hverfur síðan útyfir fjöllin í fjarska
þangað sem engin orð ná
------------------------------------------
Tileinkað
Föðurmissi, dótturmissi, sonarmissi, móðurmissi, ástkonumissi, ástmannsmissi allra manna
Öllum missi og trúarlegum, pólitískum, landfræðilegum o.s.frv. aðskilnaði allra manna
Milli þess sem elskar og þess sem er elskaður
Megi allt sem veldur þessum missi og aðskilnaði verða klofið sundur af sverði þjáningar okkar allra
Allt frá kjarna plánetu okkar í miðju jarðarinnar sem er hjarta móður okkar
Inní ómælisdjúp hjarta föður okkar í vitund hins óþekkta
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.