Sólargeislar

Frá sólinni berast geislar

Þeir lýsa upp tunglið á næturhimninum

Og yfir hafflötinn liggur vegur

Alla leið til mín

Áhorfandans á ströndinni

 

Ég lít til hliðar

Á þig

Og sé að inní þér er víðáttumikið haf

Tunglið speglast í augum þínum

En handan við nóttina hlær sólin

 

Daginn eftir ferðumst við um stræti borgarinnar

Fáir á leið okkar virðast skynja mátt sólarinnar

Sem æðir milli ljósastauranna

Í vitstola gleði ótakmarkaðrar sköpunar

 

Andlit þeirra bera með sér fall mannsandans

Trúna á að sköpunin hafi átt sér stað í gær

Ástin sem við berum til hvors annars

Enginn virðist taka eftir henni

Og enginn hermir eftir okkur

 

Á götuhorni kyssumst við

Og föðmumst líka

En í Reykjavík

Er þetta einsog að rjúfa bannhelgi

Raskar almannareglu

Svipað og að flauta

Tala hátt

Trufla fólk við að gera það

Sem það gerði í gær

 

En við gerum það samt

Því okkur dettur ekkert betra í hug

Sem hægt er að eyða tímanum í


Varir morgunroðans

 

Ég treysti ekki kvöldskuggunum

nema hafa þig í örmum mér

 

Í morgunroðanum

opna ég augun

rís á fætur

og legg af stað að leita þín

 

undir kvöld

þegar ég leggst til hvílu

safnast skuggarnir saman

 

bara að ég hefði þig hjá mér

þá gæti ég gleymt myrkrinu

 

en von mín er sverð mitt

og með því klíf ég rökkurdjúpið

allt til roða morgunsins

 

bara að þetta séu varir þínar

óska ég mér

varir þínar...og opna augun


Mannvera Sem Fyrirtæki

Mannvera sem fyrirtæki  Mannvera, helstu þættir(lausleg greining)  Sjálfráða og ósjálfráða taugakerfið. Heilinn og mænan.  Meðvitund og undirmeðvitund. Égið eða Stjórnandinn.  Blóðrásarkerfið, meltingarkerfið, öndun, vöðvar og sinar, skynfæri, útlimir, raddbönd, o.s.frv.  Fyrirtæki, helstu þættir(lausleg greining)  Bókhaldsdeildir, framleiðsla, markaðsdeildir,  starfsmannahald, innra eftirlit, gæðastjórnun, culture, o.s.frv  Í venjulegu fyrirtæki getum við sagt að Stjórnandinn samsvari meðvitund í mannveru.  Það sem ég greini sem ERROR í mannverum og hvernig þær stjórna sér, er að Égið sem samsvarar Stjórnandanum, er ekki staðsett efst í pýramídanum, heldur er það staðsett í markaðsdeildinni.  Heimsspekingur einn sagði „Ég hugsa, þessvegna er ég til“, en réttara væri: Ég er til og þessvegna get ég hugsað.  Að hugsa er geta mannverunnar, en hún hefur samsamað stjórnandann getunni.  Stjórnandinn er þessvegna ofurseldur hugsuninni.  Hann getur ekki stöðvað hana.  Hann ræður ekki yfir nema að hluta, um hvað hann hugsar.  Hugsanir hans stöðvast ekki fyrr en í djúpsvefni, en þá er líkami hans óstarfhæfur.  Til að fá þetta staðfest, hættu þá aðeins að lesa og fylgstu með hvernig hugsanir þínar birtast þér.  Geturðu stöðvað þær ?  Geturðu ráðið hvaða hugsun kemur næst ?  Hvað mikið af hugsuninni er innihaldslaus þvættingur ?  Ef mikill hluti af hugsuninni er innihaldslaus þvættingur, af hverju erum við þá að staðsetja miðjuna í hugsuninni og gera hana þar með meðvitaða, þegar hún ætti heima í ósjálfráða taugakerfinu eða undirvitundinni.  Hvaða stjórnandi í fyrirtæki myndi vilja hafa markaðsdeildina inn á borði hjá sér allann daginn og alla daga.  Það sem ég tel að þetta komi niður á fyrst og fremst er , að þetta truflar aðkomu hans að innsæinu og mörkun heildarstefnu og að hann geti tekið á móti nýjum hugmyndum.  Stjórnandinn þarf frið til að beita sér.  Til að geta beitt sér, má hann ekki vera staðsettur í því sem er beitt, eða tækinu.  Mannvera – Skiptum orðinu í tvennt.  Maður er það sem beitt er, er notað, tækið, en vera, er það sem beitir eða notar tækið.  Þessvegna er mikilvægt að stjórnandinn í mannveru flytji sig úr markaðsdeildinni og fái sér nýja skrifstofu.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband