Færsluflokkur: Ljóð
27.9.2007 | 01:02
Sólargeislar
Frá sólinni berast geislar
Þeir lýsa upp tunglið á næturhimninum
Og yfir hafflötinn liggur vegur
Alla leið til mín
Áhorfandans á ströndinni
Ég lít til hliðar
Á þig
Og sé að inní þér er víðáttumikið haf
Tunglið speglast í augum þínum
En handan við nóttina hlær sólin
Daginn eftir ferðumst við um stræti borgarinnar
Fáir á leið okkar virðast skynja mátt sólarinnar
Sem æðir milli ljósastauranna
Í vitstola gleði ótakmarkaðrar sköpunar
Andlit þeirra bera með sér fall mannsandans
Trúna á að sköpunin hafi átt sér stað í gær
Ástin sem við berum til hvors annars
Enginn virðist taka eftir henni
Og enginn hermir eftir okkur
Á götuhorni kyssumst við
Og föðmumst líka
En í Reykjavík
Er þetta einsog að rjúfa bannhelgi
Raskar almannareglu
Svipað og að flauta
Tala hátt
Trufla fólk við að gera það
Sem það gerði í gær
En við gerum það samt
Því okkur dettur ekkert betra í hug
Sem hægt er að eyða tímanum í
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2007 | 16:40
Varir morgunroðans
Ég treysti ekki kvöldskuggunum
nema hafa þig í örmum mér
Í morgunroðanum
opna ég augun
rís á fætur
og legg af stað að leita þín
undir kvöld
þegar ég leggst til hvílu
safnast skuggarnir saman
bara að ég hefði þig hjá mér
þá gæti ég gleymt myrkrinu
en von mín er sverð mitt
og með því klíf ég rökkurdjúpið
allt til roða morgunsins
bara að þetta séu varir þínar
óska ég mér
varir þínar...og opna augun
Ljóð | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)