Fæðing, Ljósið og Ferðalag í Tíma og Rúmi

Þessi grein er tileinkuð því fólki sem staðið hefur undanfarna mánuði í baráttu fyrir Nýju og Betra Íslandi, sérstaklega vil ég þakka Herði Torfasyni og Láru Hönnu fyrir þeirra framlag.

"Í Austur-Afríku er að finna ættflokk þar sem byrjað er að rækta innilegt samband við manneskjuna alveg frá því fyrir fæðingu hennar.  Hjá þessum ættbálki er fæðingardagur barns ekki talinn vera dagurinn þegar það kemur í heiminn og ekki heldur dagur getnaðarins eins og tíðkast sums staðar annars staðar.  Hjá þessum ættbálki er fæðingardagurinn rakinn til þeirrar fyrstu stundar að barnið verður hugsun í huga móðurinnar. 

Þegar móðirin verður þess áskynja að hún vill geta barn með ákveðnum karlmanni fer hún burt og sest ein niður undir tré.  Þar situr hún og hlustar þangað til hún heyrir söng barnsins sem hún vonast til þess að geta.  Þegar hún hefur heyrt þennann söng snýr hún aftur til þorpsins og kennir hinum verðandi föður hann svo þau geti sungið hann saman þegar þau elskast og bjóða barninu að koma til sín.

Síðan kennir hún gömlu konunum og ljósmæðrunum í þorpinu hann, þannig að á meðan hríðirnar standa yfir og á hinu undursamlega andartaki fæðingarinnar er barninu fagnað með þess eigin söng.  Eftir fæðinguna læra allir þorpsbúar söng hins nýja þegns og syngja hann t.d. þegar barnið dettur eða meiðir sig.  Hann er sunginn á hátíðarstundum, sigurstundum og við vígslur.  Og þegar barnið hefur fullorðnast og giftir sig er söngurinn sunginn og við ævilok safnast ástvinir hans eða hennar saman við dánarbeðinn og syngja þennann söng í síðasta sinn."(Úr bók Jack Kornfields "Um Hjartað Liggur Leið" í þýðingu Sigurðar Skúlasonar)

 

Mæður geta auðvitað ekki annað en verið viðstaddar fæðingu barna sinna.  Feðurnir afturámóti máttu eitt sinn ekki vera viðstaddir því þeir voru bara fyrir, taldir til mestu óþurftar, höfðu ekkert vit á þessu o.s.frv. sem breyttist svo sem betur fer og því átti ég sjálfur þess kost á sínum tíma að vera viðstaddur fæðingu sonar míns, sem grét og gat vart lyft augnlokum sínum, en opnaði loks annað augað og við horfðumst í augu, Faðirinn og Sonurinn.

Við lásum í augu hvors annars, leitandi og skimandi og fundum ákveðin tengsl, óháð tíma og rúmi, sem ekki hafa rofnað síðan, því það var eins og við hefðum alltaf þekkst og að þessi upplifun sem hann var að hefja en ég hafði upplifað dag eftir dag í ákveðinn tíma, var bara staður til að mætast á í tilteknu samhengi, jörð til að vera á, tími til að vera saman. 

Menn fæðast grátandi og þegar þeir deyja grætur fólk.  Það er ekkert nýtt.  Lífið sjálft er samt ekki andstæða dauðans heldur fæðingin.  Það er hægt að líta á fæðinguna sem plúspólinn og dauðann sem mínuspólinn og á milli þeirra er rafstraumur sem við köllum "Líf".  Segir ekki nútímaeðlisfræði að orka eyðist ekki.  Ég trúi sjálfur að mitt innra eðli sé bara ljós, sem birtist í ytri myndum sem tími.  Ljós á ferðalagi og söngur barnsins ómar í sjálfum mér.  Það þarf ekki annað en að horfa upp í himininn, skynja að maður sé staddur í Vetrarbrautinni og á hreyfingu,  hvílíkt ævintýri, með skrímslum og álfadísum, dvergum tröllum og mönnum, dýrum og vitleysingum og sjóræningjum.

Þjóðir fæðast og endurfæðast.  Stjórnmálaflokkar fæðast og endurfæðast.  Menn fæðast og endurfæðast.  Það er til fullt af frábæru og fínu fólki, hér á Íslandi sem annars staðar á þessari jörð.  Hamingja er það dýrmætasta sem við eigum fram að færa úr gjöfulu hjarta okkar til barna okkar og til hvers annars.  Stöndum saman áfram og alltaf. 

Vekjaraklukkan hringir fyrir stjórnvöld, en næsta vekjaraklukka ætti að vera færð hinum þögla meirihluta þjóðarinnar, því gálgafresturinn stendur aðeins fram yfir Jól, eftir það er óafsakanlegt að sitja bara hjá og glápa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Yndislega falleg færsla Gullgerðarmaður...takk

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 13.12.2008 kl. 21:14

2 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Takk fyrir það Katrín.   Ætlaði reyndar að tengja þetta við fréttina af þögninni og vekjaraklukkunni á Austurvelli í dag en gleymdi því svo, er soldið   en samt

Máni Ragnar Svansson, 13.12.2008 kl. 21:37

3 identicon

virkilega vel sagt Máni - og algerlega rétt. Fyrir mér eru dagar gamla Íslands og gömlu flokkana taldir. Spurning er bara hvernig þeir endurskapa sig.

Þetta er í raun óskup einfalt. Ef við höldum áfram að "sitja bara hjá og glápa" þá rísa gömlu flokkarnir upp aftur eins og Gólem eða djákninn frá Myrká. Þeirra verk verður þá að gera hlutnina eins og þeir hafa alltaf gert, allt frá Hannesi Hafstein ráðherra og bankastjóra, Jónasi úr Hriflu og nú síðast þeim Davíð, Geir og hvað þau öll heita.

Hinn möguleikinn er sá að við hjálpum þeim að brenna hið gamla og vera má að upp rísi nýr Fönix. Hvort bruninn verður heitari og meiri eða kaldari og minni, er undir varnarháttum þeirra og ákveðni okkar, sem vöknum komið. Ég er að minnsta kosti farinn að trúa að sannleikur sé í klisjunni að þjóðin fái þá stjórnendur (í víðasta skilningi - líka banka- og viðskiptastjórnendur) sem hún á skilið.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 01:16

4 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Blessaður Carlos   Mér blöskrar mest hvað margir hugsa bara um sinn eigin bakhluta og hafa litla sem enga samúð með náunganum, né að deila brauðinu réttlátlega, frekar að vernda kristalsljósakrónurnar og munaðinn og kokteilboðin, heldur en hlúa að mannsæmandi lífi hinna.  Ég tel að nýtt samfélag ætti að byggjast á samúð, því það eru þau tengsl milli manna sem eru traust.  En þá þurfa menn að fórna einhverju...t.d. hroka sínum, skilningsleysi sínu á þörfum annarra, sjálfsdekri sínu o.s.frv  Í Búddisma er talað um virka samúð, í Kristni um kærleika, en fyrir mér er þetta það sama og fyrst og fremst er þetta bara eitthvað sem er það mannlegasta af öllu og við erum jú menn.

Fönix rís alltaf upp og mér finnst samfélagið allavega tilfinningaríkara þessa dagana og sannara, enda var það löngu komið fram yfir síðasta söludag, enda framleiðsludagurinn stimplaður á það fyrir 17 árum, af framleiðslustjóra Hálfstæðisflokksins.

Máni Ragnar Svansson, 14.12.2008 kl. 02:03

5 identicon

"Ég tel að nýtt samfélag ætti að byggjast á samúð, því það eru þau tengsl milli manna sem eru traust. En þá þurfa menn að fórna einhverju...t.d. hroka sínum, skilningsleysi sínu á þörfum annarra, sjálfsdekri sínu o.s.frv "

Og það er ekki eitthvað sem bara kemur með þolmyndinni heldur þar sem fólk sækist eftir skilningi, auðmýkt, þar sem menn sýna samúð og þar sem menn ganga á undan með góðu fordæmi.

Það hafa stjórnvöld okkar kosið að gera ekki - og við þurfum að vísa þeim leiðina, ef við viljum að eitthvað breytist. Ég er hræddur um að Fönix rísi upp án fjaðra, ef við gerum það ekki.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 11:06

6 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

En á ekki fuglinn Fönix bráðum afmæli ?  Á degi hinnar rísandi sólar ?   Tengdur Sólkonunginum sem leikur á myrkrið og dauðann eins og lítið barn með skríkjandi hlátur, sem sker myrkrið á háls og afvopnar dauðann, með einum sólargeisla og öðrum og enn öðrum. 

En ég er allavega á því að dýrmætasta eign fátæks manns sé hláturinn og lífsgleðin, því henni er hægt að deila og hláturinn hefur vængi en ef hláturinn og lífsgleðin eru án fjaðra þá deyr fé og þá deyja frændur.

Máni Ragnar Svansson, 14.12.2008 kl. 15:06

7 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

og frænkur

Máni Ragnar Svansson, 14.12.2008 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband